LL Cool J

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

LL Cool J, réttu nafni James Todd Smith (f. 14. janúar 1968), er bandarískur rappari og leikari og er meðal brautryðjenda á sviði rapptónlistar. LL Cool J stendur fyrir „Ladies Love Cool James“.

Efnisyfirlit

[breyta] Ævi og ferill

James fæddist í Queens í New York. Aðeins níu ára að aldri byrjaði hann að rappa og fór síðar að semja og taka upp lögin sín í kjallaranum heima hjá sér.

Ferill hans hófst svo árið 1994, þegar hann gerði samning við hljómplötuútgefandann Def Jam og gaf út smáskífuna "I Need a Beat", sem vakti mikla athygli meðal rappaðdáenda. Lagið var fyrsta lag Def Jam til að ná miklum vinsældum og seljast í yfir 100 þúsund eintökum.

Eftir góð viðbrögð við laginu hætti LL Cool J í skóla og sneri sér að upptökum á sinni fyrstu sólóplötu, Radio, sem kom út árið 1985. Platan fékk góða dóma og var sú fyrsta í sögu rapptónlistar þar sem snið venjulegra sönglaga var notað til að gera poppvænt rapp. Lögin "I Can't Live Without My Radio" og "Rock the Bells" náðu miklum vinsældum og urðu til þess að platan seldist í yfir milljón eintökum.

Árið 1987 gaf hann út aðra plötu, Bigger and Deffer. Platan innihélt ballöðuna "I Need Love", sem var meðal fyrstu poppvænu rapplaga til að komast á vinsældarlista. Ekki voru þó allir ánægðir með þessa poppvænu útgáfu rapps, sem sýndi sig þegar þriðja plata hans, Walking with a Panther, kom út árið 1989. LL Cool J var búaður niður af sviði á tónleikum skömmu síðar.

Nú vildi hann reyna að vinna aftur aðdáendur hinnar gömlu, grófu gerðar rapps og ári síðar gaf hann því út plötuna Mama Said Knock You Out, sem var sú allra grófasta sem hann hafði gefið út. Platan jók vinsældir hans á ný, auk þess að bæta orðspor hans verulega meðal rappaðdáenda. Meðal laga á plötunni er "Around the Way Girl", sem náði miklum vinsældum.

Á tíunda áratugnum tók LL Cool J að sér hlutverk í ýmsum kvikmyndum samhliða tónlistarferli sínum.

Hann gaf út plötuna 14 Shots to the Dome árið 1993. Sú plata seldist illa og fékk afar misjafna dóma. Hann tók þá að sér hlutverk í sjónvarpsþáttaröðinni In the House, sem sýnd var á NBC sjónvarpsstöðinni.

Árið 1995 kom svo út hans sjötta hljómplata, Mr. Smith. Platan seldist í yfir 2 milljónum eintaka og lögin "Doin' It", "Loungin" og "Hey Lover" (ásamt Boyz II Men) komust á vinsældarlista.

Tveimur árum síðar gaf hann út plötuna Phenomenon. Samnefnt lag náði nokkrum vinsældum.

Eftir það hefur hann gefið út plöturnar G.O.A.T.: The Greatest of All Time, 10 og The DEFinition.

LL Cool J skrifaði og gaf út ævisögu sína árið 1998. Bókin heitir I Make My Own Rules og í henni fjallar hann opinskátt um ýmislegt, gott og slæmt, í lífi sínu, hvernig hann lærði af mistökum sínum og hvernig tónlistarbransinn er fullur af fólki sem reynir að nota sér nýliða.

LL Cool J hefur komið á fót sinni eigin tískufatalínu, James Todd Smith. Hann átti einnig þátt í því að koma á fót tískufatalínunni FUBU (For Us, By US).

[breyta] Hljómplötur

  • Radio (1984)
  • Bigger and Deffer (1987)
  • Walking with a Panther (1989)
  • Mama Said Knock You Out (1990)
  • 14 Shots to the Dome (1993)
  • Mr. Smith (1995)
  • Phenomenon (1997)
  • G.O.A.T.: The Greatest of All Time (2000)
  • 10 (2002)
  • The DEFinition (2004)

[breyta] Kvikmyndir

[breyta] Sjónvarpsþættir

  • The Right to Remain Silent (1996)
  • The Vibe verðlaunahátíðin (kynnir) (2004)

[breyta] Tenglar