Spjall:Breiðdalshreppur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eftirfarandi er texti sem tekinn er beint héðan. Tók hann út úr greininni.
"Áður náði hreppurinn einnig til Stöðvarfjarðar, en hann var gerður að sérstökum hreppi, Stöðvarhreppi árið 1905.
Breiðdalshreppur nær yfir Breiðdal sem er mestur dala í Austfjarðafjallgarðinum. Dalurinn skiptist í Suðurdal og Norðurdal. Mikil náttúrufegurð er í Breiðdal og rísa fjöllin kringum dalinn í yfir 1100 m hæð og eru margar fornar póstleiðir milli fjallaskarða. Að sunnanverðu er Breiðdalseldstöð, forn eldstöð með marglitum líparítsmyndunum.
Um Breiðdal fellur Breiðdalsá sem á upptök sín í Heiðarvatni á Breiðdalsheiði. Margar þverár falla í Breiðdalsá, mest þeirra er Tinna sem kemur úr Tinnudal en Norðurdalsá fellur í Tinnu. Breiðdalsá er vaxandi laxveiðiá. Aðalatvinnuvegurinn á Breiðdalsvík er fiskvinnsla en sauðfjárrækt í sveitinni.
Breiðdalsvík varð löggiltur verslunarstaður árið 1883 en fyrsta íbúðarhúsið var reist þar árið 1896.
Breiðdælingar eru nú innan við 300 talsins og búa um 2/3 hlutar þeirra í þorpinu Breiðdalsvík og um þriðjungur í sveitinni.
Elstu heimildir um byggð í Breiðdal eru í Landnámu en þar segir m.a: “Þjóðrekur hét maður, hann nam fyrst Breiðdal allan.” Mun það væntanlega hafa verið um árið 900. Þekktastur landnámsmanna í Breiðdal er hins vegar Hrafnkell Freysgoði og er ungmennafélagið í byggðarlaginu kennt við hann.
Hótel eru á Breiðdalsvík. Hótel Bláfell og Hótel Staðarborg, tjaldstæði eru við bæði hótelin. Að auki er Cafe Margret, kaffi- og matsöluhús, sem býður auk þess upp á gistingu í nokkrum herbergjum.
Nokkrir bændur bjóða einnig upp á ferðaþjónustu t.d. veiði og hestamennsku.
Staðarborg var upphaflega grunnskóli og starfaði sem slíkur frá 1958 til 1992 er starfsemi var flutt í nýjan skóla í þorpinu Breiðdalsvík.
Kirkjustaður Breiðdælinga er að Heydölum, um 7 km innan við þorpið. Núverandi kirkja var vígð árið 1975.
Hús Grunnskólans í Breiðdalshreppi var tekið í notkun haustið 1992. Það er hannað af dr. Magga Jónssyni, fyrir u.þ.b. 80 nemendur. Áður hafði kennsla farið fram í eldra húsnæði frá 1958 að Staðarborg.
Frá því Grunnskólinn var tekinn í notkun hefur verið byggt nýtt og veglegt íþróttahús (2001) og haustið 2002 bættist svo við sundlaug.
Nemendafjöldi var 45 í upphafi síðasta skólaárs og því rúmt um nemendur. Fækkun hefur verið mikil ef litið er til ársins 1978, en þá voru 70 nemendur í grunnskólanámi að Staðarborg í átta bekkjardeildum. Nemendur grunnskólans eru á aldrinum 6 - 16 ára í 1.-10. bekk. Við skólann eru starfandi 6 kennarar og tveir stundakennarar."
--Jóna Þórunn 12:24, 5 september 2006 (UTC)