Iðnbyltingin
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Iðnbyltingin er heiti á þeim umfangsmiklu breytingum sem urðu á tækni og samfélagi manna á síðari hluta 18.aldar og á 19. öld. Uppruna iðnbyltingarinnar er að leita í tækninýjungum sem fyrst komu fram á Stóra-Bretlandi en breiddust út um allan heim á löngum tíma og ollu grundvallarbreytingu á lifnaðarháttum fólks á þeim svæðum sem hún náði til. Iðnbyltingin er einnig heiti á tilteknu sögulegu tímabili.
Þótt notkun gufuafls hafi verið þekkt frá því í fornöld þá komu nothæfar gufuvélar fyrst fram á sjónarsviðið á 18. öld. Í fyrstu voru þessar vélar nýttar í vefnaðariðnaði og námavinnslu en síðar við flutninga til að knýja áfram gufuskip og járnbrautarlestar. Þetta olli byltingu í vöru- og fólksflutningum. Þessar nýjungar breiddust út um Vestur-Evrópu, Norður-Ameríku og Japan á 19. öld.
Um leið áttu sér stað umfangsmiklir fólksflutningar frá sveitum til þéttbýlisstaða sem þöndust hratt út. Iðnbyltingin var einn af þeim þáttum sem olli hraðri þéttbýlismyndun á 19. öld og breytingu frá samfélagi þar sem langflestir unnu við landbúnað til samfélags þar sem flestir unnu við iðnað.
Undir lok 19. aldar átti sér stað Iðnbyltingin síðari þar sem rafmagn og kolefniseldsneyti tóku við af gufu sem ríkjandi aflgjafar. Á sama tíma urðu Bandaríkin og Þýskaland leiðandi í tækniþróun og framleiðslu.