Tré
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tré eru stórar fjölærar trjáplöntur. Tré eru yfirleitt með einn áberandi stofn sem ber greinarnar og þar með laufskrúðið hátt uppi. Munur á trjám og runnum liggur ekki alltaf í augum uppi, en stundum er miðað við að tré séu jurtir sem geta orðið minnst sex metra háar fullvaxnar. Flest tré eru langlíf og sum geta orðið mörg þúsund ára gömul og náð yfir 100 metra hæð.
Nokkur tré sem vaxa saman í klasa eru nefnd lundur og svæði sem vaxið er trjám er kallað skógur.
Tré er að finna í nokkrum flokkum jurta sem hafa þróað með sér stofn: lauftré eru tré af fylkingu dulfrævinga og barrtré eru tré af fylkingu berfrævinga. Að auki mynda sumar jurtir trjástofn með laufinu: pálmatré, köngulpálmar og trjáburknar. Flest tré tilheyra um fimmtíu ættum jurta.