Snið:Gátt:Heimspeki/Grein
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Leikslokasiðfræði eða afleiðingasiðfræði er sú tegund siðfræðikenninga sem heldur því fram að að afleiðingar athafnar eða reglu ákvarði hvort hún sé siðferðilega rétt eða röng, með öðrum orðum að spyrja skuli að leikslokum. Leikslokasiðfræðikenning heldur því fram að siðferðilega rétt athöfn sé sú sem hefur bestar afleiðingar.
Frægasta leikslokasiðfræðikenningin er nytjastefnan, sem á rætur að rekja aftur til Davids Hume (1711-1776) og Jeremys Bentham (1748-1832) en frægasti málsvari hennar var John Stuart Mill (1806-1873) sem setti kenninguna fram í riti sínu Nytjastefnan árið 1861.
Meginmunurinn á nytjastefnunni og annarri leikslokasiðfræði er sá að nytjastefnan heldur því fram að bestu afleiðingarnar séu fólgnar í því að hámarka hamingju sem flestra. Nytjastefnan er ef til vill útbreiddasta og vinsælasta leikslokasiðfræðikenningin en hámarkshamingjulögmál nytjastefnunnar er eigi að síður ekki nauðsynlegt einkenni á allri leikslokasiðfræði. Leikslokasiðfræðingur gæti t.a.m. haldið því fram að bestu afleiðingarnar séu ekki fólgnar í því að hámarka hamingju sem flestra, heldur auka jöfnuð meðal manna sem mest.