Hestburður
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hestburður er íslenskt hugtak og mælieining úr landbúnaði þar sem einn hestburður var 100 kílógrömm af þurru heyi. Af hugtakinu er dregin mælieiningin hkg (hektókíló) sem samsvarar einum hestburði. Hektókíló er enn þann dag í dag notað í niðurstöðum tilrauna við uppskeru heyja og áburðargjöf.
Á hvern hest í heybandi voru reiddir tveir baggar, 50 kíló hver. Þannig færðu hestarnir heyið heim að hlöðu eða stæði, eða að þeir reiddu það heim á þurrkvöll. Var útheyið, af engjum og flóum, þá bundið í svokallað votaband og reitt heim á þurrari stað til þurrkunar.