Þorleifur Halldórsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorleifur Halldórsson (1683-1713) var íslenskur rithöfundur. Hann fæddist að Dysjum á Álftanesi um 1683. Faðir hans var Halldór Stefánsson. Foreldrar hans voru fátæk og gátu því ekki staðið straum af skólagöngu Þorleifs. Jón Þorkelsson Vídalín, sem þá var sóknaprestur í Garðasókn, kom auga á námshæfileika hans og ákvað að kenna honum án borgunar en ella hefði Þorleifur enga menntun hlotið. Þorleifur hóf nám við Skálholtsskóla árið 1698 og lauk því árið 1700. Að náminu loknu starfaði hann við kennslu en árið 1703 hélt hann utan og ætlaði að nema í Kaupmannahafnarskóla. Skipið rak af leið og endaði við strendur Noregs. Þorleifur stytti sér stundir á leiðinni með því að skrifa fræga ritgerð sína Mendacii encomium á latínu eftir fyrirmynd Erasmusar frá Rotterdam. Hann íslenskaði ritgerðina sjálfur árið 1711 og heitir ritið í hans þýðingu Lof lyginnar en fyrirmyndin var rit Earsmusar, Lof heimskunnar. Þorleifur lést úr berklum þann 15. nóvember 1713.