Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Framkvæmdastjórnin hefur aðsetur í Berlaymountbyggingunni í Brussel.
Enlarge
Framkvæmdastjórnin hefur aðsetur í Berlaymountbyggingunni í Brussel.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er ein af stofnunum Evrópusambandsins og telst fara með framkvæmdavald innan þess. Störf framkvæmdastjórnarinnar felast aðallega í því að gera tillögur um og setja nýja löggjöf, einnig að sjá til þess að markmiðum stofnsamninganna sé framfylgt. Framkvæmdastjórnin gegnir einnig því hlutverki á stundum að vera í fyrirsvari fyrir Evrópusambandið á alþjóðavettvangi, t.d. í samskiptum við önnur ríki og alþjóðastofnanir.

Í framkvæmdastjórninni sitja 25 fulltrúar, einn frá hverju aðildarríki sambandsins. Hver fulltrúi tekur að sér umsjón með ákveðnu sviði í starfsemi sambandsins (líkt og ráðherrar í ríkisstjórn). Forseti framkvæmdastjórnarinnar er valinn af Evrópska ráðinu en Evrópuþingið verður að staðfesta það val. Síðan tilnefna aðildarríkin hvert einn fulltrúa í stjórnina í samráði við forsetann. Þegar stjórnin er fullskipuð og verkaskiptingin innan hennar er komin á hreint þá verður Evrópuþingið að samþykkja hana í heild sinni til að hún geti tekið til starfa. Kjörtímabil framkvæmdastjórnarinnar er 5 ár og henni verður ekki vikið frá nema 2/3 hlutar Evrópuþingsins samþykki tillögu þess efnis, einstökum stjórnarmönnum verður þó eingöngu vikið frá störfum samkvæmt úrskurði Evrópudómstólsins ef þeir hafa gerst sekir um alvarleg afglöp í starfi eða fullnægja ekki lengur skilyrðunum sem þeir ættu að gera.

Framkvæmdastjórnin á að vera óháð ríkisstjórnum aðildarríkjanna í störfum sínum og ekki beygja sig undir þrýsting frá þeim. Hún á að berjast fyrir hagsmunum sambandsins í heild en ekki einstakra aðildarríkja. Eins og fram kom fyrr er töluvert erfitt að víkja framkvæmdastjórninni frá og er það liður í því að tryggja sjálfstæði hennar.

Núverandi forseti framkvæmdastjórnarinnar (síðan í nóvember 2004) er José Manuel Durão Barroso frá Portúgal.