Hröðun
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hröðun er hugtak í eðlisfræði og er hún skilgreind sem hraðabreyting á tímaeiningu. Nánar er hröðun sú hraðabreyting, sem massi (hlutur) fær vegna einhvers krafts, sem verkar á viðkomandi massa eða hlut. Tákn hröðunar er a (en: acceleration), hraði er táknaður með v (en: velocity), tími með t, kraftur með F (en: force) og massi er táknaður með m. Feitletruðu táknin eru vigrar (vektorar), en með því er átt við stærðir, sem eru stefnubundnar. Með þessum táknum verður stærðfræðileg skilgreining á hröðun (meðalhröðun) eftirfarandi:
a = (v2 - v1)/(t2 - t1)
Ennfremur gildir samkvæmt öðru lögmáli Newtons að
a = F/m
Einnig er skilgreind svokölluð augnablikshröðun og er það gert með örsmæðareikningi með hagnýtingu afleiðu. Þá er augnablikshröðunin táknuð með at og skilgreiningin er
at = dv/dt
sem þýðir það að augnablikshröðunin er jöfn fyrstu afleiðu hraðafallsins með tilliti til tíma.
Þegar hlutur eykur hraða sinn, þ.e. krafturinn er í sömu stefnu og hraðinn, er sagt að hann hafi jákvæða hröðun en þegar hraðinn minnkar, krafturinn er í öfuga átt við hraðann, er sagt að hann hafi neikvæða hröðun, vigurinn a er sem sagt alltaf í sömu stefnu og krafturinn, ekki sömu stefnu og hraðinn.
[breyta] Hröðun hringhreyfingar
Þegar hlutur ferðast eftir hringferli, þá verkar svokallaður miðsóknarkraftur á hann og hröðunin verður því í átt að miðju hringsins en ekki frá eins og gervikrafturinn (miðflóttakrafturinn, Coriolis-krafturinn) gefur til kynna, sem allir telja sig finna, þegar þeir lenda í hringhröðun.