Blóð
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Blóð er rauður vökvi, sem samanstendur af blöndu af vökva og frumum auk mikils fjölda uppleystra efna, sem flæðir um æðar lífvera. Blóðið flytur frumum líkamans næringarefni og súrefni og ber koldíoxíð (koltvísýring) frá þeim. Einnig berast hormón og alls kyns boðefni og stýriefni með blóðstraumnum og virka sum þeirra á líkamann sem heild en önnur staðbundið. Í lungum verða svonefnd loftskipti, þar sem blóðið losar sig við koldíoxíðið og tekur upp súrefni þess í stað. Hjartað sér um að viðhalda blóðstreyminu um líkamann. Helmingur blóðs er blóðvökvi. Í blóði eru nokkrar gerðir frumna, helst má nefna:
- Rauð blóðkorn
- Hvít blóðkorn
- Blóðflögur
Einnig er í blóði mikið magn uppleystra salta og fjöldi jóna. Sem dæmi má nefna natríum-, kalíum-, klór- og kalsíumjónir. Ef ekki eru kalsíumjónir í blóði (Ca+2) þá storknar það ekki. Þó takmarkar það ekki blóðstorknun í líkamanum, maður væri dáinn úr kalkskorti áður en skorturinn hamlaði blóðstorknun. Þetta hefur samt hagnýta þýðingu, því að við blóðgjöf eru kalsíumjónirnar teknar úr blóðinu með sítratlausn (kalsíumsítrat er mjög torleyst) og kemur það í veg fyrir að það storkni.