Bríet Bjarnhéðinsdóttir
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bríet Bjarnhéðinsdóttir (27. september 1856 á Giljá í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu á Íslandi – 16. mars 1940) var íslensk baráttukona fyrir réttindum kvenna, útgefandi og ritstjóri.
Efnisyfirlit |
[breyta] Æviágrip
Bríet ólst að mestu leyti upp á Böðvarshólum í Vesturhópi í Vestur-Húnavatnssýslu. 1880 fór Bríet í Kvennaskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Hún tók burtfararpróf þaðan um vorið með eldri deildinni við skólann og var hæst á því prófi. Stúlkum var ekki gefinn kostur á frekari menntun á þeim tíma, og Bríet sneri sér að barna- og unglingakennslu í Þingeyjarsýslu.
Haustið 1887 flutti hún til Reykjavíkur og kenndi í heimahúsum, konur sóttu enn hvorki né kenndu í skóla.
Haustið 1888 giftist hún ritstjóra Fjallkonunnar, Valdimar Ásmundssyni. Þau eignuðust tvö börn, Laufeyju og Héðin.
Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1928. Hún var fyrsta nafngreinda konan á frímerki á Íslandi, árið 1978.
[breyta] Útgáfuferill
Sextán ára gömul ritaði hún grein um stöðu kvenna en sýndi engum fyrr en 13 árum seinna er hún birtist endurbætt undir heitinu „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“ í tímaritinu Fjallkonan í tveimur hlutum [1], 5. júní og 22. júní 1885 undir dulnefninu Æsa.
30. desember 1887 hélt hún fyrst kvenna opinberan fyrirlestur á Íslandi sem fjallaði um hagi og réttindi kvenna. Fyrirlesturinn var haldinn í Góðtemplarahúsinu og var gefinn út á prenti 1888.
1895 hóf Bríet útgáfu á Kvennablaðinu[2] og var jafnframt ritstjóri þess til 1926.
Milli 1898 og 1903 gaf hún út Barnablaðið.
[breyta] Félagsstarf
1894 var Bríet ein af stofnendum Hins íslenska kvenfélags.
Bríet átti hugmyndina að stofnun Blaðamannafélagsins og eiginmaður hennar var meðal stofnfélaga 1897.
1907 var Bríet upphafsmaður að stofnun Kvenréttindafélags Íslands og var formaður frá 1907 til 1911 og aftur milli 1912 og 1927.
Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík sameinuðust Hið íslenska kvenfélag, Kvenréttindafélag Íslands, Thorvaldsensfélagið, Hvítabandið og Kvenfélagið Hringurinn um að bjóða fram Kvennalista. Bríet var á framboðslistanum og hlaut kosningu ásamt þremur öðrum frambjóðendum hans. Hún sat í bæjarstjórn milli 1908 og 1912 og aftur milli 1914 og 1920.
1914 var Bríet einn af stofnendum Verkakvennafélagsins Framsóknar.
[breyta] Heimildir
- „Bríet Bjarnhéðinsdóttir“. Sótt 20. nóvember 2005.
- Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna, Kvennasögusafn Íslands, Reykjavík 1998
[breyta] Tenglar
- ^ „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“ í Fjallkonunni á timarit.is
- Fyrri hluti (5. júní 1885)
- Seinni hluti (22. júní 1885)
- ^ Kvennablaðið á timarit.is