Aristippos frá Kýrenu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Enlarge

Aristippos (435-366 f.Kr.) var grískur heimspekingur, fæddur í Kýrenu í Afríku (nú í Líbýu). Hann mun hafa verið velkunnur fylgjandi Sókratesar og Platon getur hans í samræðunni Fædon, þar sem síðustu stundum Sókratesar er lýst, en ein persóna samræðunnar lýsir yfir undrun vegna þess að Aristippos hafi ekki verið við hlið Sókratesar er dauðadómi hans var framfylgt. Aristippos mun þá hafa verið á eynni Ægínu ásamt öðrum kunningja Sókratesar, Kleombrotosi. Að öðru leyti er Aristipposar hvergi getið í samræðum Platons. Honum bregður hins vegar fyrir í ritum Xenophons. Samkvæmt Æskínesi hafði Aristippos upphaflega komið til Aþenu „sökum frægðar Sókratesar“.

Díogenes Laertíos segir allnokkrar sögur um Aristippos og veru hans við hirð Díonýsíosar og Díonýsíosar yngra.

Annaðhvort Aristippos sjálfur eða dóttursonur hans, sem hét í höfuðið á afa sínum, stofnaði skóla Kýreninga, sem hélt fram nautnahyggju og sjálfshyggju. Dóttir Aristipposar eldra, Arete frá Kýrenu, var sögð hafa verið heimspekingur sjálf og hafa menntað Aristippos yngra, sem í kjölfarið var nefndur Mētrodidaktos eða „hinn móðurmenntaði“.

Hvorki ritverk Aristipposar eldra né Aristipposar yngra eru varðveitt.

[breyta] Heimildir

[breyta] Tenglar


Þessi grein sem fjallar um fornfræðilegt efni er stubbur.
Þú getur hjálpað til með því að bæta við hana


Þessi grein sem fjallar um heimspekilegt efni er stubbur.
Þú getur hjálpað til með því að bæta við hana