Samtök olíuframleiðsluríkja
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Samtök olíuframleiðenda (enska: Organisation of the Petroleum Exporting Countries eða OPEC) eru alþjóðleg samtök sem í eru olíuframleiðsluríkin Alsír, Indónesía, Íran, Írak, Katar, Kúveit, Líbýa, Nígería, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Sádí-Arabía og Venesúela. Frá 1965 hafa höfuðstöðvar samtakanna verið í Vínarborg í Austurríki. Þau voru stofnuð árið 1960. Ýmsir líta á samtökin sem verðsamtök.
Höfuðmarkmið samtakanna er að samræma aðgerðir til að vernda hagsmuni aðildarríkjanna á sviði olíuframleiðslu og koma í veg fyrir skaðlegar verðsveiflur á olíumörkuðum með því meðal annars að tryggja jafna og næga olíuframleiðslu. Samtökin höfðu mikil áhrif á olíuverð á 7. og 8. áratugnum með því að stjórna framboði á olíu en tilraun þeirra til að nota olíu sem tæki til að beita Bandaríkin og Vestur-Evrópu þrýstingi í Jom Kippúr-stríðinu, sem leiddi til Olíukreppunnar 1973, hafði þau áhrif að þessi ríki hófu markvisst að draga úr eftirspurn sinni eftir olíu frá OPEC-ríkjunum og dró þannig úr áhrifum þeirra. Þróun olíuvinnslu á öðrum stöðum, eins og Mexíkóflóa og Norðursjó hefur síðan þá aukið mikið framboð olíu frá ríkjum utan OPEC.
[breyta] Tenglar