Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þjóðernisvakning 19.aldar hafði meðal annars í för með sér áhuga á þeim frásögnum sem gengu mann fram af manni og enginn vissi höfund að og var farið að kalla þjóðsögur. Margir leikmenn og fræðimenn um alla Evrópu hófu að safna saman sögum hver í sínu heimalandi. Áhrifamesta safnið var án efa safn þýsku bræðrana Grimm sem gáfu út Grimms ævintýri á árunum 1812-1815.

Jón Árnason (1819-1888) heimiliskennari, síðar bókavörður og biskupsritari var einn ötulasti safnari íslenskra þjóðsagna. Hann gaf út hluta af því sem hann safnaði í tveimur bindum í Leipzig 1862 og 1864 undir heitinu: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri. Vöktu þær mikla athygli og höfðu mikil áhrif á þjóðarímynd og sjálfstæðisviðleitni íslendinga næstu hundrað árin.

Heildarsafn Jóns var gefið út í sex bindum í Reykjavík á árunum 1954-1961. Það var endurprentað árið 2003 með útgáfunúmeri ISBN: 9979-3-2474-0.


[breyta] Tengt efni