Öxi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Öxi
Enlarge
Öxi

Öxi er handverkfæri sem notað er við smíðar til að kljúfa timbur og breyta lögun þess. Einnig eru axir stundum notaðar sem vopn í bardaga. Í Íslendingasögum er t.d. stundum talað um silfurreknar og gullreknar axir og í Hringadróttinssögu bar dvergurinn Gimli exi sem vopn.

Axarhausinn er yfirleitt úr hörðum málmi (t.d. járni eða stáli) og skalli öðru megin eins og á hamri, en þunn egg á hinum endanum til að höggva með, t.d. í timbur. Til eru ýmsar gerðir af öxum, t.d. ísöxi og klifuröxi sem notaðar eru við fjalla- og jöklaferðir og skaröxi en blaðið á henni snýr þversum miðað við skaftið. Hún er heppileg til að höggva sæti í timbur. Eins má nefna bolöxi, viðaröxi, tálguöxi, bjúgöxi, saxbílu og blegðu. Á venjulegri exi snýr blaðið í sömu stefnu og skaftið, sem oftast er úr tré og misjafnlega langt eftir því hvað öxin er notuð við. Axir voru mikið notaðar við húsbyggingar á fyrri öldum og ómissandi við skógarhögg og vinnslu á rekaviði.

Axir hafa lengi verið notaðar við aftökur og í frönsku byltingunni kom fallöxin fram sem skjótvirkara aftökutæki. Á Íslandi voru m.a. þeir hálshöggnir sem höfðu framið morð og aðra stórglæpi. Exi var t.d. notuð bæði við síðustu aftökuna á Íslandi 1830 og aftöku Jóns Arasonar biskups 1550.

Öxi er einnig nafn á fjallvegi á Austurlandi.