Samningur Britannica við Menntamálaráðuneytið
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þann 20. apríl 1999 gerði Björn Bjarnason fyrir hönd Menntamálaráðuneytis Íslands samning við Encyclopedia Britannica International Ltd þess efnis að öll íslensk IP-net fengju aðgang að vefútgáfu alfræðiorðabókarinnar gegn ákveðnum skilyrðum, sem sett voru fram í samningnum. Gilti hann til 30. apríl 2000 og borgaði ráðuneytið 10,000 sterlingspund, eða rúmlega eina milljón íslenskra króna fyrir.
Þetta var í fyrsta skipti sem slíkur aðgangur hafði verið keyptur fyrir heilt land, en slíkir samningar eru oftast gerðir við einstaka skóla, þá oftast mennta- eða háskóla. Verðið sem einstaklingur þarf að borga fyrir ársaðgang að alfræðiorðabókinni á vefnum er 40 pund. Miðað við það fékk Menntamálaráðuneytið um 99,9 prósent afslátt ef borið er saman við að íbúar landsins hefðu allir keypt aðgang sjálfir.