Amalíuborg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Amelíuborg séð frá óperuhúsinu
Enlarge
Amelíuborg séð frá óperuhúsinu

Amalíuborg (danska: Amalienborg Slot) er höll í Kaupmannahöfn í Danmörku. Höllin er bústaður dönsku konungsfjölskyldunnar. Amalíuborg er fjórar nákvæmlega eins hallir í rókokóstíl sem standa umhverfis átthyrnt torg. Höllin var byggð fyrir fjórar aðalsfjölskyldur í miðju Frederiksstad-hverfinu sem stofnað var af Friðriki V.

Núverandi Amalíuborg stendur á grunni tveggja eldri halla. Fyrsta Amalíuborgin var Soffíu Amalíuborg sem var byggð af Soffíu Amalíu, drottningu Friðriks III á árunum 1669-1673. Þessi höll brann til grunna 19. apríl 1689 vegna óperusýningar þar sem sviðsljósin kveiktu í leikmyndinni. Eldurinn varð til þess að 170 manns fórust. Önnur Amalíuborgin var reist sem lítill sumardvalarstaður af Friðriki IV eftir aldamótin 1700.

Núverandi Amalíuborg er talin hugmynd Johanns Hartwigs Ernst Bernstorff, sendiherra Dana í París og var reist að undirlagi Moltkes hirðmarskálks Friðriks V. Hún var teiknuð af byggingameistara konungs, Nicolai Egtved. Bygging hallarinnar hófst 1750 og var lokið við að byggja allar fjórar hallirnar 1760.

Þegar Kristjánsborgarhöll brann 26. febrúar 1794 keypti konungsfjölskyldan hallirnar fjórar og gerði að bústað sínum.

Hallirnar fjórar eru:

  • Höll Kristjáns VII, upprunalega Höll Moltkes, byggð fyrir Adam Gottlob Moltke hirðmarskálk.
  • Höll Kristjáns VIII, upprunalega Höll Levetzaus, byggð fyrir Christian Frederik Levertzau ráðherra.
  • Höll Friðriks VIII, upprunalega þekkt sem Höll Brockdorffs, byggð fyrir Joachim Brockdorff greifa.
  • Höll Kristjáns IX, upprunalega þekkt sem Höll Schacks, byggð fyrir Severin Løvenskjold ráðherra en vegna fjárhagsörðugleika tók Anne Sophie Schack greifynja við verkefninu 1754.


Wikimedia Commons merkið
Margmiðlunarefni tengt Amelíuborgarhöll er að finna á Wikimedia Commons.