Orkuveita Reykjavíkur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Orkuveita Reykjavíkur er íslenskt sameignarfyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, Akranesbæjar, Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar. Orkuveitan starfar á grundvelli laga nr. 139/2001 um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirtækið rekur rafveitu, hitaveitu, vatnsveitu, gagnaflutningskerfi og fráveitu.

Forstjóri er Guðmundur Þóroddsson. Stjórn er kosin til eins árs í senn, frá og með júní 2006 sitja í stjórn Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Björn Ingi Hrafnsson, varaformaður, Haukur Leósson, Stefán Jón Hafstein og Ólafur F. Magnússon. Þá var Gunnar Sigurðsson tilnefndur í stjórn af bæjarráði Akraness.

[breyta] Saga

Orkuveita Reykjavíkur var stofnuð 1. janúar 1999, með sameiningu Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Reykjavíkur. Rafmagnsveita Reykjavíkur var stofnuð árið 1921, en Hitaveita Reykjavíkur varð að sjálfstæðu fyrirtæki árið 1946. Árið 2000 sameinaðist Vatnsveita Reykjavíkur Orkuveitunni, en vatnsveitan tók til starfa 16. júní 1909. Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi vatnsveitustjóri, var ráðinn fyrsti forstjóri Orkuveitunnar.

Þann 1. maí 2000 tók Orkuveitan við rekstri Hitaveitu Þorlákshafnar. Um áramótin 2001-2002 sameinuðust veiturnar á Akranesi og hitaveiturnar í Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit Orkuveitu Reykjavíkur. Þá bættist hitaveitan á Bifröst við fyrirtækið. Jafnframt var Orkuveitunni breytt úr borgarfyrirtæki í sameignarfyrirtæki og voru eigendurnir Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður, Hafnarfjörður, Garðabær, Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit. Garðabær seldi sinn hlut í fyrirtækinu í árslok 2002.

Á árinu 2004 sameinuðust Austurveita, Hitaveita Hveragerðis og Ölfusveita Orkuveitunni. Í byrjun ársins 2006 sameinuðust fráveitur Reykjavíkur, Akraness, Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar Orkuveitu Reykjavíkur.

[breyta] Höfuðstöðvar

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur voru á Suðurlandsbraut 34 til að byrja með, en nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins voru reistar að Bæjarhálsi 1. Samkeppni var haldin um hönnun nýju höfuðstöðvanna og hlutu Hornsteinar og Teiknistofa Ingimundar Sveinssonar fyrstu verðlaun í samkeppninni.

Nýjar höfuðstöðvar voru vígðar þann 23. apríl 2003. Kostnaður við byggingu höfuðstöðvanna fór talsvert fram úr áætlun og nam heildarkostnaður um 5.800 milljónum króna samkvæmt Morgunblaðinu, en 1.800 milljónir fengust fyrir sölu fyrri höfuðstöðva fyrirtækjanna sem voru sameinuð í Orkuveitunni.

[breyta] Tengill