Kókaín
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Talið er að í þessari grein séu staðreyndavillur. Sjá spjallsíðuna. |
Kókaín er áhrifamesta örvandi efnið af náttúrunnar hendi. Það er búið til úr blöðum kókaplöntunnar sem finnst á hásléttum Andes í Suður-Ameríku. Upprunalegur tilgangur kókaíns var að þjóna sem deyfilyf í Þýskalandi um miðja 19. öldina og var notað sem slíkt nokkuð fram á síðustu öld, sérstaklega meðal tann- og augnlækna. Það er mikil hætta fólgin í því að nota kókaín, hvort heldur það er tekið gegnum nef, sprautað eða reykt. Miklir skammtar kókaíns geta valdið flogi og dauða vegna öndurnartruflana, heilablóðfall, blæðingum eða hjartabilunum. Ekki er til mótefni sem hægt er að nota ef of stórir skammtar kókaíns eru teknir. Nokkrar sannanir eru fyrir því að þeir sem reykja eða sprauta sig með kókaíni séu í meiri hættu en þeir sem taka það í gegnum nefið. Þeir sem reykja það þjást oft af öndunarerfiðleikum og verkjum í brjósti sem tengjast lungnavandmálum og blæðingum. Að auki er meiri hætta á ávanabindingu ef kókaínið er reykt en ef það er tekið í gegnum nefið. Þeir sem sprauta sig eru í mun meiri hættu við að fá sjúkdóma sem breiðast út með blóðblöndun, s.s. eyðni. Mikil notkun kókaíns í gegnum nef getur hins vegar brennt upp brjóskið sem aðskilur nasaholin og jafnvel valdið því að það hverfur.
[breyta] Áhrif
Öfugt við það sem margir halda verður líkaminn ekki mjög háður kókaíni heldur er um að ræða andlega fíkn fyrst og fremst. Þ.e.a.s. kókaínfíklar sækja ekki í kókaín aftur og aftur til þess að slá á fráhvarfsáhrifin heldur sækjast þeir eftir vímunni.
[breyta] Notkun kókaíns
Kókaín hefur stundum verið kallað "fíkniefni ríka fólksins" vegna þess að það er tiltölulega dýrt efni.
Notkun kókaíns hefur verið mikil í Bandaríkjunum og ræðst það af nokkrum þáttum s.s. efnahagi Bandaríkjanna og nálægð landsins við Suður-Ameríku. Tilkoma krakksins jók svo neyslu kókaíns gífurlega í Bandaríkjum og árið 1982 er talið að 5,6% bandarísku þjóðarinnar hafi notað kókaín en það eru yfir 10 milljónir manns. Megnið af þeim tók þó kókaín í duftformi.
Kókaín er ekki mikið notað á Íslandi en vísbendingar eru um að notkun þess fari vaxandi. Kókaín hefur enda verið dýrt á Íslandi og mun dýrara en til að mynda amfetamín. Notkun þess takmarkast sennilega aðeins við inntöku um nef þar sem íslenskir sprautufíklar nota helst amfetamín eða heróín. Engar vísbendingar hafa fundist um krakknotkun á Íslandi.