Endurreisnin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Endurreisn er notað um það tímabil í mannkynssögu sem tók við af miðöldum. Það var blómaskeið í listum og vísindum sem snerist að sumu leyti um afturhvarf til hugmynda Forn-Grikkja og Rómverja. Endurreisnin er venjulega talin hefjast á Ítalíu á 14. öld og hafi síðan borist þaðan um Evrópu allt til síðari hluta 16.aldar og því staðið frá síðmiðöldum fram á nýöld. Ítalska skáldið Dante Alighieri er oft talinn standa á mörkum miðalda og endurreisnar og skáldið Francesco Petrarca hefur verið kallaður fyrsti endurreisnarmaðurinn.

Upphaflega var hugtakið endurreisn (rinascimento) notað af Giorgio Vasari sem ritaði æviþætti af helstu listamönnum Ítalíu á 16. öld og þá í þeirri merkingu að í myndlist hefðu menn aftur tekið upp listræn viðmið, tækni og viðhorf sem ríktu á klassíska tímanum. Hugtakið var fyrst og fremst notað í listasögu fram til síðari hluta 19. aldar þegar sagnfræðingar tóku að nota það til að lýsa einhvers konar vatnaskilum sem skildu milli hinna myrku miðalda og nútímans.

Á meðan list miðalda einkenndist af trúarlegri innri leit þá einkennist list á endurreisnartímanum af veraldlegri sýn, athyglin beinist að hinu jarðneska lífi og manninum. Húmanismi, mannhyggja eða manngildisstefna var megin menntastefna endurreisnarinnar.

Á endurreisninni var tekið að líta á hið einstaka sem lykil að hinu almenna og áhersla lögð á að vísindarannsóknir og athuganir á náttúrunni.

[breyta] Heimildir