Björgólfur Thor Björgólfsson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Björgólfur Thor Björgólfsson (f. 1967) er íslenskur kaupsýslumaður. Hann er þekktur erlendis sem Thor Björgólfsson. Björgólfur Thor er fyrsti Íslendingurinn sem komst á lista Forbes Magazine yfir 500 ríkustu einstaklinga heimsins.
Björgólfur Thor lauk námi í viðskiptafræði frá New York University árið 1991 og fór fljótlega eftir það til Rússlands ásamt föður sínum til að setja á fót gosdrykkjaverksmiðju. Rekstur verksmiðjunnar var erfiður framan af, bæði vegna málaferla innan fyrirtækisins og erfiðra viðskiptaaðstæðna í Rússlandi.
Björgólfur og félagar færðu sig um set í lok tíunda áratugarins og keyptu rekstur Bravo bruggverksmiðjunnar. Fljótlega hófst þar framleiðsla á Botchkarov bjór sem sló í gegn í heimalandinu. Heineken keypti Bravo árið 2002 og þá hafði fjárfestingafyrirtæki Björgólfs, Samson, keypt hlut í Balkanpharma og Pharmaco.
Í lok árs keypti Samson 45% hlut í Landsbanka Íslands. Fljótlega keypti Samson einnig lyfjafyrirtækið Delta og sameinaði það Pharmaco undir nafninu Actavis. Einnig keypti Björgólfur Thor, í gegnum nokkra milliliði, stóran hlut í Eimskipafélagi Íslands árið 2003. Landsbankinn eignaðist líka fjárfestingabankann Burðarás og sameinaði hann fjárfestingafélaginu Straumi, undir nafninu Straumur-Burðarás.
Björgólfur Thor hefur einnig verið mjög virkur á fjarskiptamörkuðum, sérstaklega í Austur-Evrópu, og á m.a. stóran hlut í símafyrirtækinu Novator í Búlgaríu.
Björgólfur er sonur Björgólfs Guðmundssonar. Hann er í sambúð og á eitt barn. Heimili hans er í London.