Hellisheiðarvirkjun
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hellisheiðarvirkjun er jarðvarmavirkjun á sunnanverðu Hengilssvæðinu. Virkjað er með því að bora um 20 borholur, að jafnaði 2000 metra djúpar. Úr holunum streymir jarðhitavökvi, sem er blanda af gufu og vatni. Þessum jarðhitavökva er safnað í skiljustöð. Þaðan fara svo gufa og vatn eftir tveimur aðskildum aðveituæðum í stöðvarhús virkjunarinnar. Það er tvískipt, annars vegar rafstöð og hins vegar varmastöð.
Gufan knýr túrbínur til raforkuframleiðslu. Heita vatnið verður leitt í varmastöð þar sem það verður notað til að hita upp kalt ferskvatn. Upphitaða vatnið verður leitt í leiðslum neðanjarðar til Reykjavíkursvæðisins. Áætlað er að varmastöðin taki til starfa árið 2009.
Framleiðsla rafmagns Hellisheiðarvirkjunar hófst 1. október 2006 og fara nú 90 MW af raforku frá virkjuninni inn á kerfi Landsnets hf. Raforkan er notuð í álver Norðuráls á Grundartanga.
Haustið 2007 verður ræstur 35 MW lágþrýstihverfill en að virkjunni fullbyggðri mun afl hennar verða 210 MW í rafmagni og 400 MW í varmaafli.
Orkuveita Reykjavíkur er eigandi og ábyrgðaraðili Heillisheiðarvirkjunar.
[breyta] Heimildir
- Orkuveita Reykjavíkur Hellisheiðarvirkjun
- Morgunblaðið 14. mars, 2005 Orka úr iðrum Hellisheiðar virkjuð
- Starfsleyfiskynning Hellisheiðarvirkjun
- Suðurland.is Eiturefnaslys í nótt
- Morgunblaðið 3. október, 2006 Framleiðsla hafin á Hellisheiði
- Morgunblaðið 26. júlí, 2006 Lést í vinnuslysi við Hellisheiðarvirkjun
- Morgunblaðið 28. mars, 2006 Vinnuslys við Hellisheiðarvirkjun
- Morgunblaðið 19. nóvember, 2005 Tvö slys við Hellisheiðarvirkjun